John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United, segir að stuðningsmenn liðsins eigi ekki að búast við því að félagið verði mjög virkt á félagaskiptamarkaðnum í janúar.
United hefur gengið illa á leiktíðinni og vonuðust einhverjir stuðningsmenn án efa eftir styrkingum.
„Hvað varðar gluggann í janúar erum við ekki að búast við því að vera mjög uppteknir. Það er alltaf möguleiki á að leikmenn sem eru á barmi þess að komast í hópinn fari annað til að fá að spila meira,“ sagði Murtough á viðburði með stuðningsmönnum í síðustu viku.
„Við sjáum ekki janúar sem góðan tíma til að gera viðskipti og horfum við því til sumargluggans. Financial Fair Play reglurnar eru strangar eins og við höfum séð á þessari leiktíð og við verðum því að fara varlega. Það þarf að finna eitthvað jafnvægi í þeim sem fara út og þeim sem koma inn.“