Piers Morgan var ekki sammála valinu á íþróttamanni ársins í Bretlandi sem valin var í gær, en BBC stendur fyrir verðlaununum. Lét fjölmiðlamaðurinn umdeildi í sér heyra.
Mary Earps, landsliðsmarkvörður Englands, var valin íþróttamaður ársins í þetta sinn en hún fór á kostum er enska liðið fór alla leið í úrslitaleik HM í sumar. Vann hún þá gullhanskann á mótinu.
Þetta var annað árið í röð sem ensk landsliðskona er valin en Beth Mead vann í fyrra.
„Skil ekki hvernig enskar landsliðskonur eru valdnar annað árið í röð. Á sama tíma hafa frábærir karlkyns íþróttamenn eins og Rory McIlroy, Frankie Dettori og Ronnie O’Sullivan aldrei unnið,“ skrifaði Morgan á samfélagsmiðla.
„Með fullri virðingu fyrir Earps, hefði ekki átt að veita þessi verðlaun einhverjum sem vann eitthvað?“
Netverjar gagnrýndu Morgan fyrir þetta og var honum meðal annars líkt við Joey Barton, fyrrum knattspyrnumanninn sem hefur hraunað yfir konur sem fjalla um karlafótbolta undanfarna daga.