Samkvæmt hlaðvarpsþættinum Þungavigtin var allt á suðupunkti þegar Stjarnan vann sigur á Val í Bose mótinu um helgina. Valur komst í 2-0 í leiknum en Stjarnan vann 3-2 sigur.
Sagði í þættinum að Arnar Grétarsson og Jökull Elísabetarson, þjálfarar liðanna hefðu verið í orðaskiptum og það í ljótari kantinum.
„Það var svakalegur hiti í þessum leik, sauð upp úr á milli Adda Grétars og Jökuls,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason stjórnandi þáttarins.
Mikael Nikulásson, sérfræðingur þáttarins segir að það hafi þurft að stíga á milli manna í leiknum.
„Ég hef heyrt af þessu, þetta var eins og úrslitaleikur í bikarnum. Það voru orð látin falla sem Kristján Óli Sigurðsson hefði aldrei látið falla, þetta er helvíti gaman í desember í Bose mótinu,“ sagði Mikael.
Mikael segir að það hafi þurft að róa menn en þjálfararnir hafi látið mörg ljót orð falla.
„Það sauð allt upp úr, eins og ég heyrði þá voru menn komnir á milli. Ekki bara þjálfararnir en þeir áttu hlut í því, menn voru að hrauna yfir hvorn annan.“