Christophe Dugarry, fyrrum landsliðsmaður Frakklands, hefur skotið föstum skotum að framherjanum Kylian Mbappe.
Mbappe er einn besti sóknarmaður heims og lék með PSG sem gerði 1-1 jafntefli við Dortmund í Meistaradeildinni í vikunni.
Dugarry var ekki hrifinn af frammistöðu Mbappe í þeim leik og ekki í fyrsta sinn og segir að franski landsliðsmaðurinn sé að leggja sig lítið sem ekkert fram fyrir sitt félag.
,,Ég kenni honum um sitt eigið viðhorf. Ég skil að tölfræðin skiptir hann máli en hann vissi að þetta væri leikur þar sem þeir þurftu á honum að halda,“ sagði Dugarry.
,,Hann þarf að vera leiðtogi PSG. Það er ekki hægt að efast um hans gæði en hann er ekki að leiða sitt lið áfram. Þetta er strákur sem hefur engar áhyggjur af varnarvinnunni.“
,,Hann reynir aldrei að verjast þegar varnarmaðurinn gefur boltann fjórum eða fimm metrum frá honum.“