Jose Mourinho, stjóri Roma, virtist hafa skotið að Pep Guardiola, stjóra Manchester City, varðandi kaup félagsins á Kalvin Phillips.
Phillips er enskur landsliðsmaður og lék áður með Leeds en hann hefur fengið örfá tækifæri eftir komu sína til Manchester.
Um er að ræða 28 ára gamlan leikmann sem er til sölu í janúar en Man City keypti hann á 42 milljónir punda sumarið 2022.
Mourinho vill meina að Phillips hafi kostað allt að 80 milljónir evra og að hann gæti aldrei kastað svo dýrum leikmanni burt frá Roma enda fjárhagsstaða félagsins alls ekki eins góð og hjá Englandsmeisturunum.
,,Þetta snýst ekki um að ég sé öfundsjúkur en Manchester City eyddi til dæmis 80 milljónum evra í Kalvin Phillips. Pep hefur sagt það að hann vilji losna við hann í janúar til að kaupa annan miðjumann,“ sagði Mourinho.
,,Við lifum ekki í sama heimi, ég væri til í tvo, þrjá eða fjóra leikmenn til viðbótar og Roma líka. Við viljum reyna að gera liðið sterkara en lendum í ákveðnum erfiðleikum.“