Pierre Emerick Aubameyang er loksins byrjaður að minna á sig eftir nokkur erfið tímabil á sínum ferli.
Aubameyang var lengi leikmaður Dortmund og Arsenal en ferill hans hefur í raun ekki náð flugi síðan 2020.
Í dag er Aubameyang 34 ára gamall en hann gerði samning við Marseille í Frakklandi fyrr á þessu ári.
Fyrir það lék leikmaðurinn með Chelsea en skoraði aðeins þrjú mörk í 21 leik en hann kom þaðan frá Barcelona þar sem frammistaðan var í besta falli ágæt.
Aubameyang skoraði aðallega mörk í leikjum sem Barcelona vann sannfærandi og þótti ekki standa sig í leikjum sem skiptu máli.
Í dag er Aubameyang að minna á sig í Frakklandi en hann hefur skorað 12 mörk í 21 leik á tímabilinu fyrir Marseille.
Frammistaða hans í Evrópu hefur helst vakið athygli en hann er þar með sjö mörk í sex leikjum en þó aðeins fimm í deild.
Aubameyang er þó talinn hafa spilað glimrandi vel á leiktíðinni og eftir nokkur erfið ár er hann að finna taktinn á ný.