Fyrrum knattspyrnumaðurinn Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellt skattsvik. Mbl.is sagði fyrst frá.
Þá hefur honum verið gert að greiða tæpar 64 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Rannsókn hafði staðið yfir frá því 2020 gegn Grétari og tveimur einkahlutafélögum sem tengdust honum.
Grétar stóð, samkvæmt dómi, skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2018-2020 með því að hafa vanframtalið tekjur upp á rúmar 76 milljónir króna og komist þannig hjá því að greiða 32 milljónir króna í skatt.
Grétar játaði brot sín og var það tekið inn í myndina við ákvörðun refsingarinnar.
„Af málsgögnum og framburði ákærða fyrir dómi er ljóst að hann sýndi að minnsta kosti af sér stórfellt gáleysi við framningu brotanna þar sem þess var ekki gætt að haga umræddum skattskilum með lögmætum og réttum hætti þar sem ákærði stóð skil á efnislega röngum skattframtölum,“ segir í dómnum.