Zinedine Zidane fyrrum þjálfari Real Madrid virðist vera að opna dyrnar að því að mögulega þjálfa á Englandi í framtíðinni.
Zidane hafði fyrir nokkrum árum tjáð sig um það að erfitt gæti orðið fyrir sig að þjálfa á Englandi því hann væri lélegur í ensku.
Nú segir fyrrum liðsfélagi hans frá því að Zidane hafi á þessu ári verið að læra ensku.
„Síðustu mánuði hefur Zizou verið að fara í ensku kennslu. Ég veit ekki hvort hann vilji þjálfa á Englandi en þetta opnar dyrnar,“ segir Emmanuel Petit fyrrum miðjumaður Arsenal.
„Það að hann hafi byrjað að læra ensku segir mér að hann hugsar um það að þjálfa á Englandi.“
„Hann hefur ekkert þjálfað í nokkur ár og til að vera þjálfari þá þarftu að komast aftur í leikinn, því þetta breytist allt fljótt.“