Andy Cole fyrrum framherji Manchester United telur að það sé rotta í klefanum hjá félaginu sem lekur upplýsingum í fjölmiðla.
Undanfarin ár hafa reglulega komið fréttir með upplýsingum úr búningsklefa félagsins.
„Það er klárlega rotta þarna inni,“ segir Cole en oft er talað um rottu þegar einhver segir frá hlutum sem kannski ættu að vera í ákveðnum hópi.
„Það á ekkert að koma út úr klefanum, alveg sama hvað hefur gengið á.“
Erik ten Hag er sagður hafa lítinn stuðning í klefanum og hafa virtir blaðamenn í Bretlandi það eftir heimildum, sem taldar eru koma úr klefa féalgsins.
„Ef þú ert í góðum búningsklefa, það koma þessar upplýsingar aldrei fram.“
„Ef hugarfar sigurvegarans er í gangi, þá munu ekki allir ná saman. Hjá Manchester United er leki reglulega, ef klefinn væri samheldinn þá væri þetta ekki í gangi.“
„Þetta fer allt að leka út þegar það gengur ekki vel,“ segir Cole og segir þetta skemma fyrir liðinu.