Utan vallar er skoðunarpistill höfundar:
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ lætur af störfum sem formaður sambandsins í febrúar en hún sagði frá því á dögunum að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Kosið verður um nýjan formann í febrúar.
Þegar Vanda tók þá ákvörðun að hætta þá taldi ég og líklega margir aðrir að hún færi ekki að taka ákvarðanir sem varða framtíð KSÍ og landsliðanna í fótbolta. Það kom því verulega á óvart þegar fundargerð frá fundi stjórnar í lok nóvember var birti í síðustu viku.
Þar kom fram að Vanda hefði fengið leyfi stjórnar til að fara í viðræður Age Hareide um að framlengja samning hans. Núverandi samningur hans er í gildi fram á næsta ár þegar ný formaður tekur við stjórnartaumum sambandsins.
Íslenska landsliðið á eftir að fara í umspil og mögulega þá á lokamót Evrópumótsins áður en samningur Hareide rennur úr gildi.
Sama hvort fólki finnist Hareide góður eða slæmur kostur til að leiða íslenska landsliðið er það varla í verkahring formanns sem hefur ákveðið að hætta að taka ákvörðun um framtíð landsliðsþjálfara.
Málið væri öðruvísi ef samningur Hareide væri úr gildi og önnur landslið eða félagslið gætu samið við hann. En hann er með samning þangað til nýr formaður tekur við og þá gæti orðið endurnýjun í stjórn sambandsins.
Alveg eins og það var afskaplega heimskulegt af KSÍ að reka Arnar Þór Viðarsson í vor frekar en að gera það fyrir undankeppnina (Ef það var mat stjórnar KSÍ að Arnar væri ekki rétti maðurinn), þá væri það glórulaust og álíka heimskulegt af núverandi stjórn og formanni KSÍ að framlengja við Hareide áður en þau labba frá borði.
Fjórir stjórnarmenn KSÍ þurfa að endurnýja umboð sitt í febrúar og þegar svona stutt er í ársþing ætti stjórnin að sitja á sér. Rekstur sambandsins hefur aldrei verið verri og það eru verkin sem þessi stjórn þarf að svara fyrir á ársþinginu. Þessi stjórn og formaður sem ætlar að hætta hafa að mínu mati ekkert umboð til að gera langtíma samning við Hareide.
Hareide hefur ekki náð að koma íslenska landsliðinu á flug, vel má þó vera að hann sé framtíðar þjálfari Íslands en það á nýr formaður og ný stjórn KSÍ að taka ákvörðun um.