Manchester United er úr leik í Meistaradeild Evrópu en liðið komst ekki upp úr riðlakeppninni.
Þetta varð ljóst í gær en liðið tapaði 0-1 gegn Bayern Munchen. Þurfti það að treysta á jafntefli í leik FCK og Galatasaray og vinna Bayern en Danirnir unnu sinn leik og sigur hefði því ekki dugað lærisveinum Erik ten Hag.
United skrifaði söguna þá á ansi neikvæðan hátt í gær en liðið varð það fyrsta í sögunni frá Englandi til að fá á sig 15 mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Mark Bayern í gær gerði það að verkum.
Þrátt fyrir tapið í gær var Ten Hag sáttur með liðið.
„Við klúðruðum riðlakeppninni ekki í dag. Við sýndum góða frammistöðu en gerðum nokkur mistök. Þetta var ekki nógu gott þegar allt kemur til alls en mér fannst liðið standa sig mjög vel. Við áttum ekki skilið að tapa,“ sagði hann.
„Ég verð að hrósa liðinu fyrir hvernig það spilaði gegn mjög góðu Bayern liði.“