Stuðningsmenn Bayern Munchen voru í stuði á Old Trafford í gær þegar lið þeirra vann Manchester United.
Bayern vann United 0-1 og um leið varð ljóst að enska liðið er dottið úr leik í Meistaradeild Evrópu þetta árið.
Þjóðverjarnir höfðu þegar tryggt sér sigur í riðlinum fyrir gærdaginn og skemmtu sér konunglega í stúkunni á Old Trafford.
Undir lok leiks þegar Bayern leiddi sungu þeir lagið „Football’s coming home“ til að nudda salti í sár United, en það er frægt lag á meðal enskra knattspyrnuáhugamanna.
FC Kaupmannahöfn fylgir Bayern upp úr riðlinum en liðið vann Galatasaray í gærkvöldi.
United endar á botni riðilsins og fer því ekki einu sinni í Evrópudeildina eftir áramót.