Manchester United goðsögnin Paul Scholes telur að félagið hefði átt að kaupa þá Harry Kane og Declan Rice í sumar.
Scholes fjallaði um leik United og Bayern Munchen á TNT Sports í gær en hann fór 0-1 fyrir Bayern. Enska liðið endar því á botni síns riðils í Meistaradeildinni.
United hefur einnig verið í miklum vandræðum í ensku úrvalsdeildinni en Scholes telur félagið hafa gert mistök á markaðnum í sumar.
„Það voru líklega gerð tvö stór mistök í sumar. Maður hugsar um mann eins og Harry Kane. Þú hefðir fengið hann fyrir 100 milljónir punda og hann hefði komið,“ sagði Scholes.
„Annar leikmaður er Declan Rice. Þú ert að kaupa alvöru gæði og leikmann sem er búinn að sanna sig.“
Það fór svo í sumar að Kane fór frá Tottenham til Bayern á 86 milljónir punda en Rice fór frá West Ham til Arsenal á um 100 milljónir punda.