Það eru líkur á því að Loris Karius standi í marki Newcastle gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Um er að ræða ansi mikilvægan leik en enska liðið þarf að sigra og treysta á að Paris Saint-Germain vinni Dortmund ekki til að komast í 16-liða úrslit.
Newcastle er í mikilli markvarðakrísu en Nick Pope verður lengi frá. Þá er Martin Dubravka varamarkvörður að glíma við meiðsli.
Því er líklegt að Karius verði í rammanum.
Yrði þetta fyrsti Meistaradeildarleikur hans síðan í úrslitaleik keppninnar 2018 þegar hann gerði tvö skelfileg mistök í tapi Liverpool gegn Real Madrid.
Newcastle íhugar að fá sér markvörð í janúar og eru þeir David De Gea og Aaron Ramsdale til að mynda sagðir á óskalistanum.