Hinn efnilegi Amad Diallo er byrjaður að æfa á ný eftir að hafa meiðst illa á hné í byrjun júlí á þessu ári.
Þetta hefur Manchester United staðfest en Diallo hefur spilað með liðinu undanfarin tvö ár.
Diallo var talinn gríðarlegt efni er hann var fenginn til Manchester en hann kostaði 40 milljónir evra og kom frá Atalanta.
Hingað til hefur vængmaðurinn aðeins spilað þrjá deildarleiki fyrir enska félagið og var lánaður til bæði Rangers og Sunderland.
Búist var við að Diallo myndi fá tækifæri með aðalliðinu á þessu tímabili en meiðslin komu í veg fyrir staðfestingu á því.
Diallo var frábær fyrir Sunderland á síðustu leiktíð á láni og skoraði 13 deildarmörk í 37 leikjum.
Hann er byrjaður að æfa með aðalliði Man Utd og eru líkur á því að hann verði hluti af leikmannahópnum síðar á tímabilinu.