Ríkharð Óskar Guðnason rifjaði upp ummæli sín frá því fyrir tímabil í ensku úrvalsdeildinni í nýjasta þætti Þungavigtarinnar. Vakti það ekki lukku hjá sérfræðingum þáttarins, Kristjáni Óla Sigurðssyni og Mikael Nikulássyni.
„Ég set Arsenal sem enskan meistara 2024,“ sagði Ríkharð í klippunni frá því í sumar.
Arsenal er með tveggja stiga forskot á toppnum eins og staðan er.
„Arsenal er þannig bara með sama liðið og þeir spila pottþétt nánast á sama liðinu. Hver og einn leikmaður er árinu eldri og þeir koma enn hungraðri til leiks. Þeir voru mjög nálægt þessu í fyrra og vita nákvæmlega hvernig landið liggur. Ég treysti manni eins og Mikel Arteta til að fara með þetta alla leið,“ sagði Ríkharð er hann útskýrði sitt mál í klippunni frá því í sumar.
Kristján og Mikael höfðu lítinn húmor fyrir þessu.
„Bíddu, var deildin að klárast eða?“ spurði Mikael hneykslaður og Kristján tók í sama streng.
„Deildin er ekki hálfnuð. Er verið að taka upp Áramótaskaupið hérna?“