Erik ten Hag, stjóri Manchester United, er undir mikilli pressu, allavega frá stuðningsmönnum. Hann er á leið inn í ansi mikilvæga leiki.
United mætir Chelsea nú í kvöld og á laugardag er Bournemouth andstæðingurinn. Á miðvikudag í næstu viku mætir United svo Bayern og þarf að reyna hið ómögulega, að koma sér upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Leikirnir gætu haft mikið að segja um framtíð Ten Hag en United hefur byrjað tímabilið illa.
Breska götublaðið The Sun tók saman fimm manna lista af mönnum sem gætu tekið við United ef Ten Hag verður rekinn á næstunni.
Zinedine Zidane
Hefur verið án starfs frá því hann yfirgaf Real Madrid árið 2021. Vann spænsku deildina tvisvar og Meistaradeildina þrjú ár í röð á tíma sínum í spænsku höfuðborginni.
Roberto De Zerbi
Einn mest spennandi stjóri heims. Kom Brighton í Evrópudeildina á sinni fyrstu leiktíð með liðið og það þykir tímaspursmál hvenær hann tekur við stærra liðið. Orðaður við ða taka við Manchester City eftir að Pep Guardiola fer.
Julian Nagelsmann
Heillaði með RB Leipzig og var í kjölfarið ráðinn til Bayern Munchen, þaðan sem hann var rekinn þrátt fyrir ágætis gengi. Mun stýra þýska landsliðinu á EM á heimavelli næsta sumar.
Graham Potter
Sir Jim Ratcliffe, sem er að eignast 25% hlut í Manchester United, er aðdáandi Potter og reyndi að fá hann til Nice. Gæti reynt að fá þennan fyrrum stjóra Brighton og Chelsea á Old Trafford.
Michael Carrick
Goðsögn United sem var í teymi Jose Mourinho og Ole Gunnar Solskjær á tíma þeirra sem stjórar. Hefur heillað fyrir leikstíl sinn með Middlesbrough í ensku B-deildinni. Það þykir ekki mjög líklegt að hann fái starfið á Old Trafford.