Piers Morgan, fréttamaður og stuðningsmaður Arsenal segir það skammarlegt að Manchester United hafi farið þá leið að banna nokkra blaðamenn frá fundi sínum í gær.
Erik ten Hag, stjóri United, neitaði þá að ræða við blaðamenn frá Sky Sports, Manchester Evening News og tveimur öðrum miðlum.
Ástæðan var sú að fréttir birtust í þessum miðlum að um helmingur leikmannahóps United væri búinn að missa trúna á Ten Hag.
„Allt sem Cristiano sagði mér fyrir ári síðan um Manchester United og Erik ten Hag hefur komið í ljós að var rétt,“ skrifar Morgan.
United segir að félagið mótmæli ekki fréttum en að félagið sætti sig ekki við það að fá ekki að svara fyrir sig áður en greinarnar birtast.
„Þetta er til skammar, þú getur gert þetta þegar þú ert besti stjóri sögunnar eins og Sir Alex Ferguson. Þegar þú ert Ten hag og blaðamenn eru bara að segja frá því á réttan hátt hversu lélegur þú ert, þá er þetta hlægilegt.“
„Ég vona að hver einasti blaðamaður styðji félaga sína og mæti ekki á fundi Ten Hag, ég myndi segja það nákvæmlega það sama ef Arsenal ætti í hlut.“