Samkvæmt spænska miðlinum Fichajes er Real Sociedad líklegasta félagið til að hreppa Mason Greenwood næsta sumar.
Greenwood er þessa stundina á láni hjá Getafe frá Manchester United en í ljósi forsögu hans er ólíklegt að hann spili aftur fyrir enska félagið.
Englendingurinn ungi hefur staðið sig vel hjá Getafe og í kjölfarið vakið athygli stærri félaga á Spáni.
Valencia hefur verið nefnt til sögunnar en Sociedad þykir nú líklegasti áfangastaður Greenwood.
Liðið spilar í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð og er sem stendur í sjötta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar. Verkefnið þar er því spennandi.