Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður Burnley tók þátt í því að kynna nýjung í útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni í gær.
Amazon Prime á réttinn á enska boltanum í nokkur skipti yfir árið en í gær var þeirra fyrsta útsending á árinu.
Á Amazon mátti sjá leik Burnley og Wolves þar sem Jóhann Berg byrjaði á meðal varamanna.
Jóhann Berg var svo sendur inn á sem varamaður eftir rúman hálftíma og þá kom í ljós hvaða tilgangi punktarnir fyrir ofan stöðu leiksins þjónuðu.
Punktarnir voru til merkis um hversu margar skiptingar hvert lið átti eftir og þegar Jóhann Berg skokkaði inn á völlinn átti Burnley bara fjórar skiptingar eftir.
Enskum netverjum sem horfðu á leikinn fannst þetta afar skemmtileg nýjung og hafi óskað eftir því við Sky Sports að taka þetta upp en stöðin sýnir frá flestum leikjum í deildinni.
Leikurinn endaði með 1-0 sigri Úlfanna en Burnley eru nýliðar í deildinni og sitja í fallsæti eins og stendur.