Hinn 29 ára gamli Aron hafði verið í eitt tímabil hjá Fram í Bestu deildinni en hann hefur einnig leikið með Grindavík og Haukum.
„Ég tók þrjá fundi með honum í fyrra. Hann á tengingar í Mosfellsbæinn, tengdafjölskyldan hans býr þar. Hann var nálægt þessu í fyrra en endaði í Fram þá. Svo rifti hann samningnum við Fram í haust og þá þýddi ekkert annað en að gera aðra tilraun. Ég þurfti ekki eins marga fundi í ár til að sannfæra hann. Ég held að hann hafi séð í sumar að það hafi eitthvað verið til í því sem ég sagði á fundunum í fyrra,“ segir Magnús í hlaðvarpsviðtali við 433.is.
„Það er jákvætt að menn sjái hvað við erum að gera og vilji koma og taka þátt í því með okkur.“
Magnús talar afar vel um Aron sem leikmann.
„Hann er frábær leikmaður. Við erum búnir að hafa augastað á honum lengi og teljum að hann henti mjög vel inn í okkar leikstíl. Við erum gríðarlega ánægð með að hafa fengið hann til okkar.“