Það hafa verið háværir orðrómar um ósætti innan leikmannahóps Manchester United með stjórann Erik ten Hag. Hann og félagið segir fréttirnar ósannar og voru miðlar sem fjölluðu um þetta bannaðir frá blaðamannafundi liðsins í dag.
„Þeir hefðu átt að koma til okkar fyrst en ekki fara á bak við okkur og birta fréttir sem eru ósannar. Við eigum gott samband. Þeir geta komið til okkar og við ræðum hlutina,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundinum í aðdraganda leiksins gegn Chelsea annað kvöld.
„Auðvitað eru leikmenn í öllum liðum sem eru óánægðir með að vera ekki að spila. Þú þarft að bíða eftir að tækifærið komi.
Það er ekki ósætti í búningsklefanum. Það er mikið af orðrómum í gangi en við erum ekki truflaðir af þeim. Við erum á vegferð og að fara í rétta átt,“ sagði Ten Hag í dag.