Eins og frægt er tapaði Afturelding 1-0 fyrir Vestra í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar í haust. Afturelding hafði hafnað í öðru sæti Lengjudeildarinnar en umspilið er nýtt af nálinni og sigurvegari þess fylgir toppliði deildarinnar í deild þeirra bestu.
„Þessi leikur skilgreinir hvorki Aftureldingu sem félag núna eða til framtíðar. Þetta er miklu lengra ferðalag. Við tókum stór skref fram á við í sumar og það vantaði herslumunin til að klára dæmið. En með því að komast í þennan stóra leik og fá þessa reynslu þá er ég sannfærður um það að við verðum sterkari,“ sagði Magnús er hann gerði upp sumarið í hlaðvarpsviðtali við 433.is.
„Við höfum bara sett þetta þannig upp að við ætlum að fara upp og halda okkur uppi þegar við gerum það. Þá þurfum við að vera tilbúnir þegar við förum upp og við vorum líklega ekki tilbúnir fyrst við náðum ekki að klára dæmið í ár.“
Magnús segir að það hafi verið erfitt að halda spennustigi manna niðri fyrir úrslitaleik umspilsins við Vestra, enda tilefnið ansi stórt. Nú eru menn hins vegar reynslunni ríkari.
„Þessi leikur er af allt annarri stærðargráðu en strákarnir í liðinu eiga að venjast. Það svíður eiginlega mest eftir þennan leik að hafa ekki náð betri frammistöðu. Burt séð frá úrslitunum vorum við ekki líkir sjálfum okkur. Þetta var annar leikurinn í sumar sem við skoruðum ekki í og án þess að taka neitt af Vestra höfum við átt betri leiki. Vestri spilaði vel og þeir eru vel að því komnir að fara upp.
Það spilaði pottþétt inn í að menn hafa ekki spilað svona stóra leiki áður. Sama hvað menn reyndu í undirbúningnum að ná spennustiginu réttu náðum við ekki að sýna okkar rétta andlit. En ef við förum þarna á næsta ári erum við reynslunni ríkari. En við ætlum að reyna að sleppa við þennan leik á næsta ári, við ætlum að reyna að vinna deildina.“
Þrátt fyrir að umspilið hafi ekki komið sér sérlega vel fyrir Magnús og Aftureldingu í ár er hann aðdáandi fyrirkomulagsins.
„Mér fannst þessi úrslitakeppni frábær fyrir Lengjudeildina. Ég held að ég hafi verið sá eini sem talaði með þessu fyrir mót og það væri auðvelt að breyta um skoðun núna því þetta fór svona en það er alls ekki þannig. Mér finnst þetta lyfta deildinni og það er mun meiri spenna,“ sagði hann.