Danmörk 0 – 1 Ísland:
0-1 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (´77)
Íslenska kvennalandsliðið vann frækinn sigur á Dönum á útivelli í Þjóðadeildinni í kvöld, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði eina mark leiksins.
Fanney Inga Birkisdóttir byrjaði sinn fyrsta landsleik í marki Íslands og var mögnuð í rammanum.
Fanney var örugg í öllum aðgerðum og bjargaði íslenska liðinu oft á tíðum.
Það var svo þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum sem Karólína Lea skoraði eina mark leiksins.
Íslenska liðið endar í þriðja sæti riðilsins með níu stig en liðið vann Wales í tvígang og svo Dani í kvöld.
Íslenska liðið hafði fyrir leikinn tryggt sér sæti í umspili um að halda sér í deildinni og fara þeir leikir fram í lok febrúar á næsta ári.