Skemmtikrafturinn og hlaðvarpsstjarnan Hjálmar Örn Jóhannsson var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar sem kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Hjálmar er mikill stuðningsmaður Tottenham og fer reglulega á leiki. Hann vill að börnin hans styðji liðið einnig.
„Börnin mín verða að halda með Tottenham því ég vil geta farið með þeim á leiki. Ég hef ekkert gaman að því að fara á leiki með öðrum liðum,“ sagði Hjálmar léttur í bragði.
Hann rifjaði þá upp þegar hann fór á leik hjá Arsenal, erkifjendum Tottenham.
„Ég fór einu sinni á Arsenal-leik og það eina sem þeir gerðu var að syngja um Tottenham. Ég hugsaði: Ég nenni þessu ekkert. Þeir voru að syngja að maður ætti að standa upp ef maður hataði Tottenham, maður var þarna eins og hálfviti.“
Umræðan í heild er hér ofar og þátturinn hér að neðan.