Íslenska kvennalandsliðið vann mikilvægan 1-2 sigur á Wales í Þjóðadeildinni í kvöld.
Þó Wales hafi verið betri aðilinn framan af kom Hildur Antonsdóttir íslenska liðinu yfir eftir tæpan hálftíma leik. Staðan í hálfleik var 0-1.
Diljá Ýr Zomers tvöfaldaði forskot Íslands með frábæru marki þegar um tíu mínútur lifðu leiks og staðan orðin ansi vænleg.
Elise Hughes minnkaði muninn fyrir Wales í blálokin en nær komust heimakonur ekki. Lokatölur 1-2.
Úrslitin þýða að íslenska liðið sleppur við fall úr A-deild í bili hið minnsta en það fer í umspil um áframhaldandi veru þar.