Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður segir gagnrýni á Anton Ara Einarsson vera ósanngjarna þegar litið er til þess að fleiri leikmenn Breiðabliks hafi átt slæmt tímabil.
Anton Ari átti slæman dag í markinu gegn Maccabi Tel Aviv í Evrópukeppni í gær en hann hefur mátt þola mikla gagnrýni á tímabilinu.
„Ég bara held að þetta sé samspil margra þátta, markið sem hann fær á sig í gær. Þú hefðir getað sett hvaða derhúfu og sólgleraugu sem er, þú keppir ekki við sólina. Boltinn fer beint í sólina, derhúfa gerir ekkert,“ segir Gunnar Birgisson í Dr. Football.
„Þetta er fast skot, kemur beint á hann og beint inn í sólina. Það var testað hvort derhúfa gæti bjargað einhverju, það hjálpaði ekkert.“
Gunnar segir að það sé ljóst að það að Blikar skoði nú að fá inn markvörð sé ekki til að hjálpa Antoni.
„Ég geri bara ráð fyrir því að það sé einhver að bíða eftir því að taka plássið, hann hefur seint fengið þá virðingu sem hann hefði átt að vinna sér inn. Hann hefur átt betri tímabil en í ár.“
„Hann hefur sett standarinn hærri en tímabilið í ár, mér finnst umtalið beinast beint að honum. Það eru fleiri leikmenn sem hafa átt slakt tímabil.“
Gunnar nefnir svo aðra leikmenn sem hafa verið slakir í ár.
„Hafsentaparið hefur átt betri tímabil en í ár, Damir og Viktor. Ef við horfum á miðjumenn, Oliver Sigurjónsson, Viktor Karl, Jason Daði. Þeir hafa átt betri tímabil en í ár, liðið er ekki í mojoinu. Það er enginn að efast gæði þessara leikmanna en alltaf farið í að tala um að finna eftirmann Antons.“