Mario Balotelli vandar fyrrum stjóra sínum hjá Liverpool, Brendan Rodgers, ekki kveðjurnar í nýju viðtali.
Glaumgosinn Balotelli, sem er orðinn 33 ára gamall, hefur komið víða við á ferlinum. Þar á meðal Manchester City, Inter og AC Milan. Árið 2014 gekk hann hins vegar í raðir Liverpool en þar gekk lítið upp.
Stjóri Liverpool á þeim tíma, Brendan Rodgers, hefur áður gagnrýnt ítalska framherjann fyrir frammistöður sínar á Anfield. Nú hefur Balotelli hins vegar svarað fyrir sig.
„Brendan Rodgers er versti þjálfari sem ég hef haft,“ segir hann.
„Hvaða æfingar og annað varðar var hann í fyrsta sæti en sem manneskja var hann hræðilegur,“ bætir Balotelli við beittur.
Balotelli er í dag á mála hjá Adana Demirspor í Tyrklandi.