Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu verður heiðraður í Þýskalandi á sunnudag. Hann verður þá gestur á leik Augsburg og Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni.
Alfreð var leikmaður Augsburg í sex ár en hann fór frá félaginu sumarið 2022.
Augsburg var allan tímann í þýsku úrvalsdeildinni á meðan Alfreð var hjá félaginu og reyndist hann félaginu afar vel.
Alfreð skoraði 37 mörk fyrir Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni og er hann markahæsti leikmaður í sögu félagsins í deildinni.
Forráðamenn félagsins vilja þakka framherjanum knáa fyrir hans framlag til félagsins en Alfreð leikur með Eupen í Belgíu í dag.