Breska ríkisútvarpið er með langa grein á vef sínum í dag þar sem fjallað er um það að fjöldi leikmanna í enska boltanum fái að spila áfram á meðan rannsókn lögreglu er í gangi á þeirra málum.
Þar segir að tveir leikmenn séu að spila í úrvalsdeildinni í dag á meðan þeir eru undir grun um gróft ofbeldi.
Hannah Price, blaðakona hjá BBC hefur undanfarið ár skoðað málið og rætt við þær konur sem sakað hafa knattspyrnumenn um ofbeldi.
Þannig segir frá einum leikmanni sem er undir rannsókn lögreglu en fimm konur hafa sakað hann um nauðgun eða alvarlegt ofbeldi. Um er að ræða mál frá því í apríl 2021.
„Hann telur sig alveg svakalega merkilegan og það var ekki í boði að segja nei við hann,“ segir ein konan sem sakar leikmanninn um að hafa nauðgað sér.
Konurnar segjast sumar hafa haft samband við félög leikmanna, enska knattspyrnusambandið og ensku úrvalsdeildina sem gera ekkert í málunum að þeirra sögn.
Ein konan stígur fram í samtali við Price og segir að knattspyrnustjóri í deildinni í dag hafi nauðgað sér þegar hún var 15 ára. Atvikið átti sér stað fyrir mörgum árum.
Hún ræddi við lögreglu á þeim tíma en ekkert meira var gert, hún fór svo til lögreglunnar árið 2021 og vildi vita hvernig málið hefði verið skoðað. Lögregla tók málið upp og kallaði stjórann í skýrslutöku í sumar.
Hann gengur laus og heldur vinnu sinni áfram á meðan lögreglan skoðað málið á nýjan leik. Hann starfar í dag í ensku úrvalsdeildinni.
Þessi sami stjóri var einnig kallaður til lögreglunnar árið 2021 þegar önnur kona steig og fram og sagði hann hafa brotið á sér þegar hún var 15 ára líkt og hin konan.
BBC segir misræmi vera í því hvernig félög taki á málum. Manchester United hafi sett Mason Greenwood til hliðar á meðan hans mál var hjá lögreglu en Antony fái að spila nú þegar lögregla skoðar ásakanir á hann um að hafa lagt hendur á fyrrum unnustu sína.
Fjallað er um að Everton hafi sett Gylfa Þór Sigurðsson til hliðar á meðan hans mál var á borði lögreglu. Manchester City og Brighton hafi spilað leikmönnum á meðan mál er í gangi og fleira í þeim dúr.
Ein konan segir að hún hafi reynt að taka eigið líf vegna máls sem kom upp en enska sambandið hafi ekkert hlustað á hana þegar hún benti á það.
„Ég vildi ekki vera partur af samfélagi þar sem er stöðugt verið að minna okkur á það að ef sökudólgurinn hefur hæfileika þá er ekki hlustað á ásakanir um nauðgun,“ segir konan.