Paul Scholes segir að Bruno Fernandes fyrirliði Manchester United verði að taka ábyrgð á jafntefli liðsins gegn Galatasaray í gær.
Scholes var ósáttur með fyrirliðann sem braut í tvígang af sér fyrir utan teig þar sem Gala skoraði í bæði skiptin.
Andre Onana markvörður liðsins gerði þar tvö dýr mistök eftir brotin hjá Bruno. „Þetta er enn einn leikurinn sem liðið hefði getað klárað,“ sagði Scholes.
United komst í tvígang í tveggja marka forystu í leiknum en á endanum fór leikurinn 3-3 og United í slæmri stöðu í Meistaradeildinni.
„Ég veit að í viðtalinu talar Bruno um mistök en hann gerir tvö stór mistök með því að gefa heimskulegar aukaspyrnur sem kosta mörk.“
„Þeir geta ekki haldið hreinu, vörnin er út um allt. Markvörðurinn gefur mörk og Bruno brýtur heimskulega af sér reglulega.“
„Þetta gerir leikinn erfiðari fyrir liðið.“