Það var dramtík í París í gær þegar heimamenn í PSG tóku á móti Newcastle.
Newcastle var grátlega nálægt því að vinna frábæran útisigur en allt kom fyrir ekki. Heimamenn voru mun meira með boltann í leiknum og fengu fleiri færi en það voru gestirnir frá Englandi sem komust yfir með marki Alexander Isak á 24. mínútu.
Undir blálokin fékk PSG hins vegar vítaspyrnu og úr henni skoraði Kylian Mbappe. Lokatölur 1-1.
Vítaspyrnudómurinn þykir afar umdeildur en boltinn fór af líkama Tino Livramento og þaðan í hönd hans, eitthvað sem væri til að mynda ekki talið hendi í ensku úrvalsdeildinni.
Szymon Marciniak dómari kíkti hins vegar í skjáinn og benti svo á punktinn. Atvikið má sjá hér.
Stuðningsmenn Newcastle voru vægast sagt ósáttir við dóminn. Goðsögn félagins Alan Shearer þar á meðal.
„Gerðu mér greiða maður. Þvílíkt andskotans bull,“ skrifaði hann.
Michael Owen, annar fyrrum leikmaður, tjáði sig einnig.
„Þetta er aldrei víti. Við erum fjær stöðugleika í reglunni um hendi en við höfum nokkurn tímann verið.“