Þeir Alisson og Diogo Jota verða ekki með Liverpool gegn LASK í Evrópudeildinni á morgun og líklega eitthvað áfram.
Jota fór meiddur af velli í leiknum gegn Manchester City um helgina og Alisson fann einnig til aftan í læri seint í leiknum þó hann hafi klárað hann.
„Báðir verða frá. Meiðsli Ali eru smávægari samt,“ sagði Jurgen Klopp á blaðamannafundi fyrir Evrópudeildarleik Liverpool gegn LASK á morgun.
„Alisson verður ekki með á morgun og ekki á sunnudag. Hann verður líklega ekki klár í næsta leik þar á eftir en svo ætti hann að vera nokkurn veginn í lagi,“ sagði Klopp.
„Diogo verður frá lengur. Við vitum ekki hversu lengi en það er alvarlegra. Við sjáum til.“
Liverpool er í efsta sæti riðilsins í Evrópudeildinni og tryggir sig áfram með sigri á morgun.