Þetta skrifar Hjálmtýr í pistli sem birtist á Vísi. Breiðablik er með Maccabi í riðli í Sambandsdeildinni og fer leikurinn fram á Laugardalsvelli á fimmtudag.
„Heimurinn hefur að undanförnu horft með hryllingi á árásir Ísraelshers gegn íbúum Gazastrandarinnar. Engu er eirt, yfir ellefuþúsund Gazabúar drepnir í stórfelldum loftárásum og árásum skriðdrekasveita og stórskotaliðs sem skjóta á allt kvikt á einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar.
Þessi grimmilega hrina morða er réttlætt með því að það verði að „drepa alla Hamasliða“ eins og forsætisráðherra Ísraels sagði í upphafi innrásarinnar. En aðeins lítill hluti þeirra föllnu eru liðsmenn Hamas,“ skrifar Hjálmtýr meðal annars í pistli sínum.
Hjálmtýr segir eitt sterkasta vopn almennings vera að sniðganga íþróttaviðburði eins og leik Blika og Maccabi.
„Með því að þrýsta á stjórnvöld getur almenningur mögulega náð fram stefnubreytingu. En sterkasta vopnið í höndum almennings er víðtæk sniðganga á sviði menningarsamskipta, á sviði íþróttasamskipta og á sviði viðskipta. Sniðganga sem varir svo lengi sem ísraelsk stjórnvöld halda áfram að brjóta alþjóðasáttmála og mannréttindasáttmála sem kveða skýrt á að Palestínumönnum beri full mannréttindi og frelsi undan kúgun.
Allir þeir leikmenn sem hingað koma á vegum Maccabi Tel Aviv eru á þeim aldri að þeir eru annaðhvort hermenn í her Ísraels eða í varaliði hersins. Ég skora á Breiðablik að hætta við fyrirhugaðan knattspyrnuleik gegn Maccabi Tel Aviv og senda með því skýr skilboð að íslenskt íþróttafólk styður mannréttindi,“ skrifar Hjálmtýr.
Pistilinn í heild má nálgast hér.