Heimir Hallgrímsson, þjálfari Jamaíka hefur tekið samtalið við Mason Greenwood framherja Manchester United um að hann spili fyrir landsliðið. Frá þessu sagði hann í útvarpsþætti Fótbolta.net.
Greenwood er í láni hjá Getafe á Spáni og hefur verið að finna vopn sín á Spáni eftir átján mánaða fjarveru frá fótboltanum.
Greenwood hefur spilað einn landsleik fyrir England en er með tvöfalt ríkisfang. Óvíst er hvort Englendingar velji hann aftur eftir að Greenwood var grunaður um ofbeldi í nánu sambandi.
Lögregla rannskaði mál hans í rúmt ár en málið var fellt niður og Greenwood frjáls ferða sinna.
„Ég hef bara sagt að ef hann vill koma, þá hef ég ekkert á móti því. Eins og allir þjálfarar þá vil ég vera með bestu leikmennina í liðinu mínu. Svo er það bara annarra að taka ákvörðun með það. Ég hef heyrt í honum, já. Ég myndi segja að hann sé að skoða þetta, liggur undir feldi,“ sagði Heimir í Fótbolta.net þættinum.