Óskar yfirgaf Breiðablik í haust og fór til Haugesund í Noregi. Hann hafði stýrt Blikum síðan 2020 með Halldór sér til halds og trausts. Áður voru þeir félagar saman með Gróttu einnig og enn fyrr 2. flokk KR. Hafa þeir alls starfað saman sjö ár af síðustu níu.
„Ég og Óskar unnum alltaf vel saman og hann gaf mér alltaf stórt hlutverk og mikla rödd í teyminu. En maður finnur það að ábyrgð aðalþjálfarans er mikil. Hann er sá sem ber ábyrgð á öllu saman, umgjörðinni, að hlutirnir séu í lagi og úrslitum í leikjum,“ segir Halldór um samstarf þeirra í sjónvarpsþættinum 433.is.
Undir stjórn Óskars og Halldórs urðu Blikar Íslandsmeistarar í fyrra.
„Þetta eru stór spor að fylla. Ég bý að því að hafa unnið lengi með Óskari og lært mikið af honum,“ segir Halldór.
Halldór segir að hann hafi fengið að vita eftir að ljóst var að Óskar væri að fara til Noregs að Breiðablik hefði áhuga á að ráða hann sem aðalþjálfara.
„Óskar sjálfur tilkynnir mér það fyrstur að hann ætli að hætta eftir tímabilið. Um leið og hann tilkynnir það heyri ég í Breiðabliki og þeir létu mig vita af því að þeir hefðu áhuga á að ræða við mig um að taka við liðinu.
Það er mikill heiður að stýra þessu félagi. Það er auðvitað ekki sjálfsagt að ráða tiltölulega nýjan þjálfara. En það er væntanlega eitthvað sem ég hef gert á mínum tíma í Breiðabliki sem gerir það að verkum að menn haldi að ég sé rétti maðurinn til að leiða þetta áfram,“ segir Halldór.
En kom til greina að hann fylgdi Óskari út til Noregs sem aðstoðarmaður?
„Það var svosem ekki rætt á þannig nótum. Í gegnum árin höfum við rætt það hvað við ættum að gera ef Óskar færi út. Ég er sjálfur með tvö börn og fjölskyldu hér heima svo það er kannski erfitt að fara að rífa alla upp. Svo var kannski bara kominn tími fyrir mig að standa á eigin fótum og verða aðalþjálfari. Áður en ég fór að starfa með Óskari í Gróttu hef ég í raun alltaf verið aðalþjálfari í þeim verkefnum sem ég hef verið í svo það var kominn tími á það.“
Halldór segir að hann taki margt með sér frá tíma sínum með Óskari en að hann komi þó einnig inn með nýja hluti.
„Klárlega. Ég þarf samt að passa mig að kópera ekki bara það sem við eða hann gerði. Grunnprinsippinn verða þau sömu. Við viljum stýra leikjum með og án bolta, vera orkumikið lið sem pressar og það mun ekki breytast. En það er mikilvægt fyrir mig að koma inn með mitt líka.“
Viðtalið í heild er í spilaranum en þar er farið yfir víðan völl. Einnig er það aðgengilegt í hlaðvarpsformi.