Svo gæti farið að Trent Alexander-Arnold verði refsað fyrir fagn sitt í jafntefli Liverpool gegn Manchester City um helgina.
Bakvörðurinn skoraði jöfnunarmark Liverpool í leiknum og fagnaði með því að sussa á stuðningsmenn City.
Alexander-Arnold fékk ekki spjald fyrir fagnið eins og hefði getað gerst en breska götublaðið The Sun segir frá því að enska knattspyrnusambandið geti skoðað málið og refsað honum.
Það er þó alls ekki víst að svo fari en The Sun segir í frétt sinni að taki enska knattspyrnusambandið málið fyrir verði aðvörun líklegasta niðurstaðan.