Íþróttavikan kemur út alla föstudaga en þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson sjá um þáttinn. Gestur þessa vikuna var sparkspekingurinn og fótboltaþjálfarinn Mikael Nikulásson.
Íslenska karlalandsliðið er á leið í umspil um sæti á EM í mars og verður andstæðingurinn þar Ísrael í undanúrslitum. Þetta var til umræðu í þættinum og rifjaði Mikael upp úrslitaleik umspilsins við Ungverjaland 2020 þar sem Ísland tapaði á grátlegan hátt í lokin eftir að hafa verið yfir.
„Það var bara saman liðið sett inn á og fjórum árum áður. Svo bara gekk þetta ágætlega af því við vorum með reynsluna og börðumst,“ sagði Mikael og hélt áfram.
„Þegar tíu mínútur voru eftir sprakk blaðran. Þeir voru allir búnir á því. Við þurfum að passa upp á þetta. Við þurfum að vera með menn sem þú getur reiknað með að spili 90-100 mínútur.“
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar og þátturinn í heild hér neðar.