Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að Mohamed Salah geti enn bætt sig sem leikmaður þrátt fyrir að vera orðinn 31 árs gamall.
Salah hefur lengi verið einn besti leikmaður Liverpool ef ekki sá besti en var sterklega orðaður við Sádi Arabíu í sumar.
Klopp þekkir Salah vel og veit hvað í honum býr og þrátt fyrir að hann sé að nálgast seinni árin á Egyptinn mikið inni.
Það er augljóst að Klopp vill alls ekki losna við sóknarmanninn sem spilar í raun alla leiki enska stórliðsins og er gríðarlega mikilvægur.
,,Auðvitað getur hann bætt sig. Við búumst við því að hann bæti sig. Af hverju væri hann fyrstur inn um dyrnar og sá síðasti til að fara ef hann vill ekki bæta sig?“ sagði Klopp.
,,Hann hefur öðlast mikla reynslu undanfarin ár og þekkir leikinn betur en áður, allt annað en þegar hann kom hingað. Hann á í góðu sambandi við alla liðsfélaga sína og er sérstakur náungi, vonandi getur þetta samstarf haldið áfram.“