Íþróttavikan kemur út alla föstudaga en þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson sjá um þáttinn. Gestur þessa vikuna var sparkspekingurinn og fótboltaþjálfarinn Mikael Nikulásson.
Guðni Bergsson tilkynnti á dögunum að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik.
„Mér finnst bara gott hjá honum að bjóða sig fram en Guðni þarf að fá einhvern á móti sér því hann þarf að kynna sína stefnu. Maður heyrir að Þorvaldur Örlygsson sé að pæla í þessu og það yrði mjög áhugaverður slagur,“ sagði Hrafnkell um málið.
Helgi spurði hvort brottför Guðna úr KSÍ árið 2021 gæti haft neikvæð áhrif en í hans formannstíð var KSÍ sakað um að bregðast ekki við meintu ofbeldi landsliðsmanna.
„Það hefði kannski áhrif ef öll þjóðin fengi að kjósa en ekki fyrst þetta eru bara aðildarfélögin er það ekki,“ sagði Mikael og hélt áfram. „Ef Guðni fær almennilegan mann á móti sér held ég að hann tapi þessu.“
Mikael vill sjá Björn Einarsson taka slaginn á nýjan leik en Guðni hafði betur gegn honum í formannskjöri 2017.
„Það væri gaman því ég held að hann myndi vinna hann í þetta sinn.“
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar og hér að neðan er þátturinn í heild.