Íþróttavikan kemur út alla föstudaga en þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson sjá um þáttinn. Gestur þessa vikuna var sparkspekingurinn og fótboltaþjálfarinn Mikael Nikulásson.
Dregið var í umspilinu um sæti á EM næsta sumar á dögunum en umspilið fer fram í mars. Ísland er þar á meðal þáttakenda og mætir Ísrael í undanúrslitum og Bonsíu eða Úkraínu í hreinum úrslitaleik á EM ef sá leikur vinnst.
Hrafnkell og Mikael voru sammála um það að það hefði í raun verið heppilegra að dragast í A-umspilið þar sem andstæðingurinn hefði verið Wales í undanúrslitum og líklega Pólland í úrslitum.
„Að mínu mati er Úkraína besta liðið í umspilinu. Wales og Pólland hefði verið erfiðari undanúrslitaleikur en Ísrael en meiri möguleiki heilt yfir að mínu mati,“ sagði Hrafnkell.
„Ég held það hefði verið betra fyrir okkur að lenda hinum megin því ég sé Ísland ekki vinna Úkraínu,“ sagði Mikael.
Umræðan í heild er í spilaranum.