David Beckham, eigandi Inter Miami, viðurkennir að hann hafi ekki alltaf verið sannfærður um að Lionel Messi myndi ganga í raðir félagsins.
Messi samdi við Miami í sumar en hann spilaði með Paris Saint-Germain fyrir það og áður auðvitað Barcelona.
Barcelona sýndi Messi áhuga um tíma í sumar og þá hafði Beckham áhyggjur að Argentínumaðurinn myndi enda hjá sínu fyrrum félagi.
Barcelona mistókst þó að semja við leikmanninn á ný og spilar hann í dag í Bandaríkjunum í fyrsta sinn.
,,Við vissum alltaf að við myndum lenda í samkeppni. Ég varð áhyggjufullur í eitt skipti og það var þegar Barcelona sýndi áhuga,“ sagði Beckham.
,,Þetta er félag sem á stóran stað í hans hjarta og hann náðí í raun aldrei að kveðja á almennilegan hátt. Það var í eina skiptið sem ég hafði áhyggjur, að hann myndi fara einhvert annað.“