Kjartan Henry Finnbogason var gestur í hlaðvarpsþættinum, Chess after Dark í vikunni þar sem hann fór yfir virkilega áhugaverðan feril sinn. Kjartan er að skoða það hvort hann haldi áfram í fótbolta.
Kjartan lék með FH á síðustu leiktíð og gerði vel. Hann ræddi um Arnar Gunnlaugsson sem er núna í viðræðum við sænska félagið Norrköping.
Arnar hefur unnið kraftaverk með Víking en viðbúið er að Sölvi Geir Ottesen taki við liðinu fari svo að Arnar fari.
„Arnar er svolítið sérstakur, og það á góðan hátt. Ég var á námskeiði hjá KSÍ um síðustu helgi þar sem hann var með mjög gott erindi og lagði sóknarleik Víkings sumarið 2023 á borðið, það er ógeðslega flott hjá honum að gera það,“ sagði Kjartan í þættinum.
Hann segir Arnar eiga skilið tækifæri í atvinnumennsku en vill ekki tala of fallega um félagið.
„Arnar á þetta klárlega skilið, hvort að hann sé hrifinn af því eða sé með einhver önnur plön hjá Víkingi verður bara að koma í ljós.
„Ég nenni ekki einhverju Víkingsrúnki hérna, ég vona bara að Arnar fari og þeir geti ekki rassgat á næsta ári ef ég á að vera hreinskilinn.“