Joao Neves er ansi eftirsóttur þessa dagana og er hann orðaður við fjölda stórliða.
Þessi 19 ára gamli miðjumaður þykir ansi mikið efni en hann er á mála hjá Benfica í heimalandinu. Þar spilar hann stóra rullu þrátt fyrir ungan aldur.
Þá lék Neves sína fyrstu landsleiki á dögunum en leikur númer tvö kom einmitt gegn Íslandi á sunnudag.
Manchester United og Manchester City eru á meðal félaga sem fylgjast náið með Neves en Benfica hefur ekki í hyggju að selja hann neitt á næstunni.
Þá er klásúla upp á 105 milljónir punda í samningi leikmannsins og alls óvíst hvort félög séu til í að borga svo mikið fyrir svo ungan leikmann.
Þetta er sama klásúla og var í samningi Enzo Fernandez hjá Benfica þegar Chelsea keypti hann í byrjun árs.