Hinn 37 ára gamli Kjartan fór ungur að árum til Celtic frá uppeldisfélaginu KR og var þar í rúm tvö ár. Hann segist hafa verið gífurlega metnaðarfullur og viljað spila með aðalliðinu. Það tókst hins vegar ekki þó svo að hann hafi raðað inn mörkum fyrir varaliðið.
„Maður var bara pirraður á að vera ekki í aðalliðinu. Þetta var bara annar tími. Ég vona að í dag séu umboðsmenn og ráðgjafar sem segja: „Við erum í vegferð. Ekki hugsa svona, bíddu í ár.“ Það var ekkert þannig. Ég var bara vanur að vera í KR og vera langbestur og sagði öllum að fokka sér. Ég var bara alveg trylltur og fannst að ég ætti að spila,“ segir Kjartan.
„Svo meiddist ég og eftir það átti maður voða lítið breik,“ bætti hann við.
Kjartan fékk sannarlega boð um að vera áfram hjá Celtic en hann var ekki til í það á meðan hann var ekki að fá tækifæri með aðalliðinu.
„Þeir buðu mér 2-3 sinnum samning, aftur og aftur og aftur. Ég sagði bara nei, ætlaði að fara. Það var, að ég held, í sambandi við uppeldisbæturnar, þeir þurftu að hafa boðið mér samning til að eiga rétt á einhverju í framtíðinni. Þeir buðu mér alltaf samning en ég sagði bara: „Fokkið ykkur, ég ætla að fara eitthvað annað, alveg ruglaður.“ Svo var ég einu sinni gabbaður inn á skrifstofu til stjórans. Þeir sögðu mér að hann vildi tala við mig. Ég hélt að hann væri að fara að segja mér að ég myndi spila næsta leik eða eitthvað svoleiðis,“ segir Kjartan en það var þó alls ekki málið.
„Þá voru bara einhverjir tveir gaurar úr stjórninni, réttu mér samning svo stjórinn yrði vitni af því að mér hafi verið boðinn samningur. Ég var bara gabbaður inn í eitthvað hliðarherbergi þar sem var vitni að þessu. Ég man ég labbaði út og henti samningsboðinu í ruslið fyrir utan völlinn. Ég hugsa eftir á: Hvar var einhver til að slá mig utan undir? Taktu hausinn út úr rassgatinu á þér og taktu tvö ár í viðbót. En það var ekki þannig, maður fór sínar eigin leiðir.“