Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á félagaskiptum Jermain Defoe til Portsmouth frá Tottenham árið 2008.
Framherjinn knái skellti sér þá suður og samdi við Portsmouth þar sem Harry Redknapp var stjóri liðsins.
The Times sagði frá málinu í vikunni en bæði félög og Harry Redknapp eru sögð hafa notað umboðsmann sem hafði ekki réttindi í málinu.
Það er alvarlegt brot að mati enska sambandsins sem hefur hafið rannsókn eftir umfjöllun Times.
Luton Town gerði það sama árið 2008 og voru tíu stig tekin af liðinu fyrir að nota umboðsmann án réttinda.
Ensk blöð segja að hægt sé að setja félög í félagaskiptabann, taka af þeim stig eða dæma þau niður um deild ef brotið er mjög alvarlegt.
Tottenham neitar að tjá sig um málið en Portsmouth segir að þetta hafi gerst í tíð annara eiganda og því viti þeir ekkert um málið.