Umspilið fer fram í mars og eru leiknir stakir undanúrslita- og úrslitaleikir. Ísland mætir Ísrael á hlutlaustum velli í ljósi ástandsins þar. Hefði íslenska liðið dregist í A-umspil hefði að mætt Wales.
„Ég held að Wales í Cardiff hefði verið enn erfiðara. Við spilum við Ísrael á hlutlausum velli. Af þeim liðum sem við hefðum getað dregist gegn var þetta það skársta en þau eru öll erfið og við þurfum að vera upp á okkar besta til að fara áfram,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag.
„Við þurfum að vera þolinmóðir. Þetta er eins og bikarkeppni og það eina sem þetta snýst um er að vinna undanúrslitin.“
Hareide og hans teymi mun undirbúa leikinn afar vel og hafa nokkra mánuði til þess.
„Við vorum með mann á leik Ísrael gegn Rúmeníu og fáum skýrslu frá honum. Við munum horfa á alla þeirra leiki undanfarið. Við vitum að þeir eru með sterka menn svo það er mikilvægt að við undirbúum okkar taktík vel fyrir þann leik.“
Úkraína og Bosnía mætast í hinum undanúrslitaleiknum á þessari leið. Hareide telur að fyrrnefnda liðið vinni þar og að sá leikur yrði mjög erfiður ef Ísland kemst þangað.
„Ég held við spilum gegn Úkraínu ef við vinnum. Ég sá þá á móti Ítalíu og þeir voru mjög góðir,“ sagði Normaðurinn.