Markverðirnir Rúnar Alex Rúnarsson, Elías Rafn Ólafsson og Hákon Rafn Valdimarsson komu allir við sögu í undankeppni Íslands fyrir EM 2024 sem nú er að baki. Nú tekur við umspil og telur landsliðsþjálfarinn Age Hareide sig vita hvern hann ætli að hafa í rammanum.
Rúnar Alex spilaði fyrstu sjö leiki undankeppninnar áður en Elías spilaði tvo og Hákon síðasta leikinn gegn Portúgal, þar sem hann heillaði marga.
Ísland er á leið í umspil um sæti á EM í mars þar sem Ísrael verður andstæðingurinn í undanúrslitum. Veit Hareide hvern hann ætlar að nota þar?
„Já, ég held það. Hákon átti virkilega góðan leik gegn Portúgal og átti mjög gott tímabil með Elfsborg,“ sagði Norðmaðurinn á blaðamannafundi í dag.
„Rúnar spilaði til að byrja með en ekki núna, sem er ekki gott. Elías hefur gert vel í Portúgal og spilaði hann því gegn Slóvakíu.
Við ákváðum að prófa alla markverðina okkar. Hákon gerði mjög vel gegn Portúgal og ég er mjög sáttur með alla okkar markverði,“ sagði Hareide.