Fyrrum knattspyrnumaðurinn og nú sparkspekingurinn Gabby Agbonlahor telur að það þurfi að láta Gareth Southgate fara sem þjálfara enska karlalandsliðsins ef liðinu tekst ekki að vinna Evrópumótið næsta sumar.
Southgate hefur á sínum tíma komið Englandi í undanúrslit HM og úrslitaleik EM en hefur ekki unnið neitt enn sem komið er.
„Ég held að allir stuðningsmenn séu sammála um það að ef Southgate vinnur ekki EM verður hann að fara. Undanúrslit eru ekki nóg,“ segir Agbonlahor.
Hann segir jafnframt að draumaarftaki Southgate yrði Pep Guardiola, stjóri Manchester City.
„Kannski er hann búinn að gera allt sem hann langar að gera í félagsliðabolta og gæti notið þess að fylgjast með leikmönnunum um allan heim. Ég held að það yrði frábært að ráða hann.“