Joao Neves er ansi eftirsóttur þessa dagana og er hann orðaður við fjölda stórliða.
Þessi 19 ára gamli miðjumaður þykir ansi mikið efni en hann er á mála hjá Benfica í heimalandinu. Þar spilar hann stóra rullu þrátt fyrir ungan aldur.
Þá lék Neves sína fyrstu landsleiki á dögunum en leikur númer tvö kom einmitt gegn Íslandi á sunnudag.
Manchester United og Manchester City eru á meðal félaga sem eru talin á eftir Neves en liðsfélagi hans í portúgalska landsliðinu, Bernardo Silva, spilar auðvitað með City.
„Ef ég get mun ég reyna að fá Joao Neves til að velja Manchester City í stað United, það er nokkuð augljóst,“ sagði Silva um Neves.
Samningur Neves við Benfica rennur ekki út fyrr en 2028 og félagið því í sterkri samningsstöðu.